Færsluflokkur: Dægurmál
10.1.2009 | 22:05
Hryðjuverk eða hagræðing?
Er einhver munur á þessu tvennu í dag í íslensku samfélagi? Eða er hið síðarnefnda liður í langvarandi heilaþvotti með orð tungunnar að vopni?
Má vera að fyrirsögnin gefi til kynna öfgar og upphrópanir. En skammt hefur verið högga á milli og engin takmörk virðast vera á því hvað hægt er að bjóða lýðnum - eða ætti ef til vill að standa skrílnum.
Hvað er hægt að ganga langt í að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur?
Nú þrengir heldur betur að þeim er þrengst búa. Það virðist heldur enginn mannauður vera á Íslandi - bara nokkrir ráðamenn í embættum ríkisins eða þeir sem nú hafa tekið yfir og þykjast á Alþingi, með eða á móti eftir því hvort það hentar framtíðaráformum þeirra sjálfra eða þeim þægu innan þeirra nánustu. Þeir sitja sem fastast á gullinu sínu í formi valds, sama hvað það kosta, því þeirra er ríkið, mátturinn og friðhelgin.
Og varla er hægt að segja að ráðamennirnir sitji auðum höndum. Á almenning er ráðist úr öllum áttum - svo mörgum að áður en við höfum áttað okkur á einu högginu kemur nýtt.
Og þrátt fyrir fagurgalann og hástemmdar yfirlýsingar um að nú þurfi öll dýrin í skógin að taka höndum saman, sýna samstöðu (hvað sem það nú er) og vera vinir, heldur skothríðin áfram - skothríðin sem í raun var löngu byrjuð. Nú er sprengjunum kastað þar sem risið er lægst, ef það er þá nokkuð.
Síðustu dæmin eru ekki langt undan þótt nokkrir fjármálabraskarar, seðlabankastjóri og aðrir fjármálaverndarar þokist nú til úr minninu. Sjálfur fjármálráðherrann er reyndar keikur og vinsæll sem fyrr og meira að segja núverandi utanríkisráðherra treystir honum nú til margra góðra verka (enda aðalbakhjarlinn sjálfur dómsmálaráðherra) og hans (þ.e. hennar) vegna þarf enginn af sér að segja. Og upp rís nú heilbrigðisráðherra enn og aftur með sverð og sleggju og sker sem aldrei fyrr - sker niður gamla fólkið og sjúklingana sem hrannast upp. En þessum háttsettu ráða- og embættismönnum er nú líka sár vorkunn - búið að lækka launin þeirra - launin sem alltaf var verið að hækka eins og ósjálfrátt. Það er því engin smá vinna að berja á þessari vesölu og vanþakklátu þjóð sem ætla mætti að sé nærri ósjálfbjarga og eins gott að hirða það sem hún hugsanlega hefur náða að nurla saman en ekki haft vit á að stinga undir koddann.
Og nú bíður starfsfólk sjúkhúsanna víða um land eftir nýjum samruna - bara sí svona. Og við sem nutum svo mikils góðæris fyrir örfáum mánuðum; við sem vorum hamingjusömust þurfum nú að fara að átta okkur á orðum eins og samruna, sparnaði, niðurskurði og og og ... og nú allt þessari alþjóðlegu kreppu að kenna og kannski aðeins líka af því að gamli Glitnir dó og hinir smituðust. Eða hvað? Vita þessir dýrðarinnar drottnarar, í klúbbunum sem við kusum víst yfir okkur, að langtímaminnið nær í raun svo ósköp skammt?
Já, hann er skrítinn fugl þessi kanína!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)